Saga Laxár hf.

Fóðurverksmiðjan Laxá hf. var stofnuð 28. júní 1991. Heimilisfang félagsins og varnarþing er á Akureyri. Tilgangur með stofnun félagsins var í fyrstu að taka á leigu vélar og tæki þrotabús Ístess hf. í Krossanesi og selja viðskiptamönnum þess fóður. Ári síðar keypti Laxá verksmiðju Ístess og aðrar eignir í Krossanesi.

Tilgangur félagsins er framleiðsla og sala á fiskeldisfóðri.

Markmið félagsins er að selja hágæða fóður á samkeppnishæfu verði. 

Ístess hf.

Ístess hf var stofnaði í maí 1985 og voru stofnendur Kaupfélag Eyfirðinga og Síldarverksmiðjan í Krossanesi sem áttu hvort um sig 26% hlutafjár, og norska fyrirtækið T. Skretting a.s. í Stavanger sem átti 48% hlutafjár. Tilgangur félagsins var framleiðsla og sala fóðurs fyrir eldisfisk og ýmis þjónusta við fiskeldi.

Við stofnun Ístess hf var undirritaður leyfis- og sölusamningur milli Ístess hf og T. Skretting a.s. sem m.a. veitti ístess hf aðgang að framleiðslutækni og fóðurgerð T. Skretting a.s. Fóðurverksmiðja var reist árið 1987 og árleg framleiðsla var 8 – 9.000 tonn. Samkvæmt samningnum fékk Ístess h.f. einnig einkarétt til að selja fóðurvörur undir vörumerki T. Skretting a.s. á Íslandi og í Færeyjum.

Ístess seldi um 2/3 framleiðslu sinnar til Færeyja. Við stofnun félagsins og fyrstu árin á eftir, ríkti mikil bjartsýni hér á landi sem og í nágrannalöndum okkar um framtíð laxeldis.

Í maí 1991 var fóðurframleiðslufyrirtækið Ístess hf lýst gjaldþrota eftir að Skretting, norski hluthafinn, hafði sagt upp sölu- og leyfissamning félaganna.