Um Laxá

 Laxá hf. var stofnuð árið 1991 með það að markmiði að framleiða og selja fiskeldisfóður á innlendum markaði og til útflutnings.  Laxá rekur á Akureyri sérhæfða verksmiðju til framleiðslu á hágæða fiskeldisfóðri og er afkastagetan 15.000 tonn árlega.

Tilgangur félagsins er: framleiðsla og sala á fiskeldisfóðri.

Markmið félagsins er að selja hágæða fóður á samkeppnishæfu verði.

Verksmiðja Laxár var í tíð Ístess byggð upp undir handleiðslu frá Skretting, sem veitti tæknilega ráðgjöf varðandi uppsetningu vélbúnaðar og faglega ráðgjöf í fóðurframleiðslu.  Skretting var stærsti eigandi Ístess á árunum 1985 til 1991 og hefur í gegnum tíðina verið framsæknasti, stærsti og virtasti fiskafóður framleiðandinn á heimsmarkaði.

Til að tryggja gæði fiskafóðurs eru ávallt notuð fyrsta flokks hráefni. Uppistaða hráefna og grunn efni er innlent fiskimjöl og lýsi sem er með uppruna úr Norður Atlantshafi.  Hveiti er einnig grunn efni í gerð fiskafóðurs, ásamt vítamínum og steinefnum sem tryggja næringarþarfir eldisfisks.
Til að lágmarka notkun á verðmætu fiskimjöli eru notaðir ódýrari próteingjafar í formi repju, soya og maís, en hlutfall þeirra í fóðri fer eftir prótein þörf fiskjar og hráefnis verðum á heimsmarkaði.  Laxá framleiðir og selur þanið extrúderað fiskafóður fyrir bleikju, þorsk, lax, flatfisk og regnbogasilung.  Fiskeldisfóður frá Laxá uppfyllir prótein og næringarþarfir hverrar tegundar og vaxtastigs, þannig að hámarks vöxtur sé tryggður með sem lægstum fóðurstuðuli.

Framleiðsla Laxár er mest seld innanlands og er markaðshlutdeild um 85%, en meðal viðskiptavina eru öll stærstu fiskeldisfyrirtæki landsins. Laxá hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir stöðug og góð gæði í fiskafóðri, auk þess að veita viðskiptavinum sínum góða og sveigjanlega þjónustu.  Til að auka hagkvæmni í rekstri og nýtingu á verksmiðju, þá hefur Laxá selt fóður á erlanda markaði og nemur magnið um 20% af árlegri framleiðslu.

Vöruþróun og rannsóknir eru mikilvægir partar af starfsemi Laxár og er markmiðið með því að halda fyrirtækinu í fremstu röð í framleiðslu á fiskafóðri.  Grunnurinn undir það er þáttaka Laxár í rannsóknum með MATÍS, Hólaskóla, Aquaplan Niva, Verinu og helstu viðskiptavinum, en á liðnum árum hefur Laxá verið þáttakandi í nær öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið hérlendis og snerta fóðurgerð fyrir eldisfisk.